3. feb. 2017

Fræðslufundur 13. febrúar - Styrktarþjálfun með hlaupum og Laugavegurinn


6. nóv. 2016

Fræðslufundur 14.nóvember - Hvernig lágmörkun við líkur á hlaupatengdum meiðslum?


4. nóv. 2016

Vetrartími

Laugardagstíminn er komin yfir á vetrartíma og byrjar æfing klukkan 9:30 frá og með morgundeginum 5. nóv.

Minnum á endurskin sem hluta af æfingasetti nú þegar tekur að dimma.

Image result for running in dark

12. okt. 2016

Fræðslufundur 17. október - Þjálfun fyrir keppnishlaup í lengri vegalengdum


7. júl. 2016

Fyrsta Kópavogsmaraþonið

Aðdragandi þátttöku í Kópavogsmaraþoninu

Í byrjun árs 2016 var það ekkert sérstaklega á planinu hjá mér að hlaupa heilt maraþon í maí. Ég var búinn að setja stefnuna á últra(utanvega)maraþon í júlí og kominn með ákveðið stigvaxandi hlaupaplan. Þótt ég hafi ekki stundað hlaup í mörg ár þá eru það þrjú megin hlaup sem ég miða við þátttöku í á vorönn, Víðavangshlaup ÍR (5km), Vormaraþon Maraþonfélagsins (21km) og Ármannshlaups Eimskips (10km).

Ég frétti af Kópavogsmaraþoninu seinni hluta febrúar frá hlaupafélaga mínum sem sagði mér að boðið yrði upp á hálft og heilt maraþon. Tímasetning hlaupsins passaði ágætlega inn í hlaupaplanið miðað við vor hálfmaraþon og útltramaraþon um sumarið. Sú hugmynd að vera kominn í maraþon form í lok maí fannst mér svolítið heillandi. Ég setti mig því í hlaupastellingar og hóf einbeittan undirbúning. Kópavogsmaraþonið var haldið 21.maí, sömu helgi og Kaupmannahafnarmaraþonið. Ég gat því æft lengri vegalengdir með nokkrum Kaupmannahafnarförum í Laugaskokki.

Þar sem Kópavogsmaraþonið var ekki kynnt fyrr en fljótlega upp úr áramótum þegar margir hlauparar eru þegar búnir að setja niður sitt ársplan þá var ljóst að þátttaka yrði ekki talin í þúsundum. Það hafði líka áhrif að sama dag var Stjörnuhaupið haldið (5 og 10km) sem dró að stóran hóp skokkara. Ég fylgist grannt með skráningu og sá að afar fáir voru skráðir í heilt maraþon. Það fannst mér á vissan hátt heillandi tilhugsun. Vikuna fyrir hlaup voru aðeins tveir skráðir í fullt maraþon. Eitthvað fékk ég að heyra af góðlátlegu gríni frá hlaupafélögum mínum eins og spurningar um hvort ég fengi verðlaunabikar fyrir fram og fengi að hlaupa með hann, hvort það ætti ekki bara að sleppa hlaupinu og gefa mér amk þriðju verðlaun fyrir að skrá mig og svo framvegis. Ég skráði mig á endanum nokkrum dögum fyrir hlaup en lokatalan var níu maraþonarar. Ég var svo heppinn að vinna sérleg útdráttaverðlaun nokkrum dögum fyrir hlaup, 10 agúrkur!

                                               IMG_20160520_200941.jpg

Kópavogsmaraþonið 21.maí 2016

Morguninn 21.maí rann upp bjartur og fagur og ég kominn í topp hlaupastand. Markmiðið sem ég hafði í huga að bæta fyrsta maraþontíma minn frá haustinu áður og hlaupa undir fjórum tímum.
Maraþonið og hálfmaraþonið var ræst á hlaupabrautinni á Kópavogsvelli kl.8:30. Í heildina voru auk okkar níu rúmlega fimmtíu hálfmaraþonhlauparar sem fóru með okkur fyrri hluta leiðarinnar. Veðrið var bjart, sól, örlítill hægur vindur og tveggja stafa hiti.
Það var skemmtileg byrjun á hlaupinu að leggja undir sig hlaupabrautina út af vellinum. Mig langaði eiginlega að setja mig í spretthlaupastöðu fyrir ræs en lét mér nægja tilhlökkunarkvíðaspennuna sem hríslaðist um mig rétt fyrir ræs.

20160521_083157.jpg

Skyndilega var hlaupið hafið og hlaupið var áleiðis út fyrir Kópavogsvöllinn í átt að Kópavoginum, yfir Arnarneshæð og þaðan eftir Sjálandinu út á Álftanesveg. Þegar þar var komið við sögu og fyrsta 5km drykkjarstöð að baki var brostið á með brakandi blíðu. Ég byrjaði að lyftast upp á æðra tilverustig þar sem ég rauk áfram á góðu 4:55 tempói út á Álftanes í því mesta nær-logni sem ég hef upplifað á Álftanesinu. Útsýnið var hreint unaðslegt, hugsanir hvörfluðu til verðandi forsetakostninga þegar Bessastaðir þutu hjá og önnur drykkjastöðin úti á neshringnum leið hjá í hlaupagleðimóðu. Hlaupið var sömu leið til baka með viðkomu á þriðju drykkjastöðinni aftur í átt að Kópavogsvelli. Ég var í góðu gengi og hljóp dágóðan spotta af Álftanesinu með viðkunnanlegum manni sem var á sama tempó hraða. Þegar leið á síðari hluta hálfmaraþonsins sá ég að ég var vel á undan tímaáætlun og í góðu standi.

Það er kannski hálf kjánalegt að segja frá því en það gladdi mig ósegjanlega þegar hlaupafélagi minn byrjaði að láta undan tempói á leiðinni upp Arnarnesið þótt hann væri “bara” í hálfmaraþoni. Ég upplifði sterkt uppskeru þrotlausra margra mánaða æfinga. Sjálfur er ég vanari að vera skokkarinn sem horfir á eftir maraþonhlauparanum upp brekku og hverfa í hitamistri. Ég sá að ef ég missti ekki mikið niður tempóið yrði það leikandi að slá fyrra maraþonmet. Enn var þó rúmlega helmingur eftir og ekkert í höfn.

Þegar komið var aftur í námunda að Kópavogsvelli átti samkvæmt leiðarlýsingu að hlaupa hring í kringum völlinn og halda svo áfram inn í Kópavogsdal. Þar stóð hins vegar brautarvörður og stuggaði okkur maraþonhlaupurunum beint áfram. Nú hvarf hjarðupplifunin og skyndilega var ég einn á hlaupum. Ég var örlítið stressaður fyrir því að villast eða fara ranga leið þar sem engir hlauparar voru nærri til að fylgja. Vegalengdamerkingar hættu að stemma og ég sá fljótt að um 500m vantaði upp á, sennilegast jafn langt og hringurinn sem átti að taka um völlinn. Ég ákvað að vera ekkert að hugsa nánar út í það, við værum allir í sama pakkanum hvort eð er.

Leiðarmerkingar reyndust alveg fullnægjandi svo framarlega sem maður var vel á verði og horfið niður fyrir sig á öllum gatnamótum. Hlaupið var upp að Dalvegi, niður Kópavogdalinn og Kársneshringinn. Á þessum kafla hljóp ég fram úr einum maraþonhlaupara en í veðurblíðunni voru ótal hlaupahópar, hjólreiðamenn í WoW stuði og ýmiskonar útivistarfólk á ferðinni. Fjármálaráðherrann varð á vegi mínum í hlaupagallanum og heilsaði mér kumpánlega eins og gömlum kunningja. Sennilegast staðalbúnaður hjá honum, enda hef ég aldrei hitt manninn í eigin persónu áður.

Næst var hlaupið undir Kringlumýrarbraut og inn Fossvogsdalinn. Þar beið fjölskyldan mín við Fossvogsskóla, kom til mín auka geli og tóku smá sprett með mér til að hvetja mig áfram. Frábær hvatningarorð og gleði eru eins betri en vítamínsprauta og létti það sporin áfram að Víkinni og Elliðaám.

Á hitaveitustokknum mætti ég tveimur maraþonhlaupurum sem komnir voru fyrir Gerisnefið áleiðis til baka í Víkinna. Ég fylgdi á eftir, heldur farinn að þreytast kominn á þrítugasta og fjórða kílómetra fallinn niður í uþb 5:30 tempó sem var þó framar björtustu vonum. Á leiðinni upp frá Víkinni að húsakynnum Tengis við Smiðjuveg hitti ég fyrir langerfiðasta kafla leiðarinnar. Þar er rétt um kílómeters kafli, 38. kílómeterinn, með um 50m hækkun til að komast úr Fossvogsdalnum upp á Kópavogsöxlina. Það kemur ekki á óvart að sá reyndist hægasti kafli leiðarinnar. Á móti kemur hins vegar að eftir það er allt meira og minna niður í móti fram Kópavogsdalinn aftur á Kópavogsvöll.
Ég var eðlilega orðinn verulega þreyttur þegar aðeins voru tveir kílómetrar og fékk strengi í kálfana í stuttri brekku upp á Fífuhvammsveg. Áhyggjur mínar af vegalengdinni reyndust óþarfar því ég fékk hjólafylgd frá Daníel Smára síðasta legginn niður að velli og beindi hann mér að fara einn ytri vallarhringi áður en hlaupið endaði í hring á hlaupabrautinni.

Þegar ég er að leggja af stað í utanverðan vallarhringi sé ég konu fram undan með hund í inndaganlegu bandi. Hún hefur bersýnilega verið að bíða eftir einhverjum hlaupara því hún stendur við hlaupabrautina og er að horfa inn á Kópavogsvöl. Hundkvikindið er hins vegar búinn að sjá mig og ærist allur, rýkur af stað í áttina að mér þvert yfir hlaupabrautina geltandi eins og hvolpur með þeim afleiðingum að ég hleyp beint á bandið milli hunds og eiganda svo það lenti á ofanverðum sköflungnum. Verandi á 40.kílómeter með úr sér hlaupna lærvöðva og kálfa mátti engu muna að ég hryndi kylliflatur meint á andlitið. Í geðshræringu minni virðist ég hafa fengið eitthvað adrealínboost þannig að ég rétt næ að toga fæturnar upp fyrir bandið án þess að detta og hleyp áfram. Ef ég hef einhvern tíman blótað meira upphátt þá skal ég hundur heita en atvikið má glöggt sjá á hjartsláttarritinu hjá mér.

Ég heyrði út undan mér að einhver var kominn í málið að gera atlögu að illa siðaða eiganda hundspottsins en nú var markið það eina sem skipti máli. Hlaupið ætlaði ég að klára sama hvað gerðist. Ég kláraði vallarhringinn vandræðalaust og kom á fljúgandi ferð inn á spretthlaupabrautina síðustu hundrað metrana eða svo. Í eyrum mér ómaði hið kunna stef úr myndinni Chariots of fire þar sem ég kom í mark á tímanum 3:44:12, gjörsamlega búinn á’ðí á nýjum mettíma með bætingu upp á næstum hálftíma frá fyrsta maraþoni.

Ekki nóg með það heldur kom í ljós að ég komst á verðlaunapall því ég lenti í öðru sæti í mínum aldursflokki! Þá komst annar Laugaskokkari á verðlaunapall því Gunnar J Geirsson varð í fyrsta sæti í sínum aldursflokki.
Ég fór heim sæll og glaður, sérstaklega hamingjusamur eftir frábært hlaup.

Kópavogsmaraþonið í baksýnisspeglinum

Í heildina litið fannst mér hlaupið mjög gott. Þetta er nýtt hlaup sem sett var af stað með skömmum fyrirvara miðað við mörg hlaup og því eðlilegt að eftir eigi að fínpússa einhver smáatriði í framkvæmdinni. Hlaupaleiðin var skemmtileg, vel staðið að hlaupinu bæði af hendi hlauphaldara og sjálfboðaliða ekki síst miðað við fjölda þátttakenda. Tímasetningin finnst mér mjög hentug fyrir ýmiskonar langtímaplön og er sennilegt að ég skoði hálft eða mögulega heilt maraþon á næsta ári. Það kom fram í máli hlaupaaðstandenda að þetta væri fyrsta Kópavogsmaraþonið og það stæði til að leyfa því að vaxa á næstu árum. Ég á því von á því að aðbúnaður hlaupsins, merkingar og þátttaka muni bara batna á næstu árum. Það verður kannski ekki alltaf hægt að treysta á sól og logn úti á Álftanesi, en hvort er maður að fara í hlaup til að skora á sjálfan sig eða til að ná sér í tan?

  13275397_10154112791390242_360966518_o.jpg

    

24. jún. 2016

Miðnæturhlaupið 2016
Það er alltaf ákveðin sjarmi yfir Jónsmessuhlaupinu. Einhverra hluta vegna hef ég ekki tekið þátt undanfarin ár, en oft mætt til að hvetja hlaupara í brautinni. Laugaskokkarar ættu að þekkja brautina vel því hún liggur einmitt um æfingasvæðið okkar í Laugardalnum, og út í Elliðaárdal þar sem ófáir kílómetrarnir hafa verið hlaupnir. Það voru helst hálfmaraþonhlaupararnir sem fengu að kanna nýjar slóðir. 

Í ár voru um 20 Laugaskokkarar mættir til leiks, flestir í 10km en nokkrir líka í 5km og jafnvel hálfmaraþoni. Montréal farar notuðu sumir hverjir tækifærið til að testa hraðann fyrir prógrammið sem byrjar eftir næstu viku. 

Gulu jakkarnir okkar góðu urðu til þess að glaðbeittir Laugaskokkarar fundu hvorn annan í anddyri Laugardalshallarinnar og einhverjir hituðu upp í brekkusprettum. Því miður vöktu gulu jakkarnir okkar svo mikla lukku að nokkrir þeirra hurfu, en einhverjir freistuðust til að skilja þá eftir við Laugardalshöllina eftir upphitun. Við vonum að merkingarnar geri það að verkum að þeir skili sér aftur til réttra eigenda. 

Brautin þykir krefjandi og í 10km hlaupinu er talsverð hækkun sem verður til þess að fæstir fara í þetta hlaup með væntingar um bætta tíma. Engu að síður stóð okkar fólk sig afskaplega vel, gáfu tóninn fyrir komandi hlaup og árangur í sumar. Göngudeildin sló þátttökumet og átti í það minnsta átta félaga á ráslínu, ég heyrði nokkra tala um tíma sem hafa ekki sést í tvö ár eða meira. Að öðrum ólöstuðum má nefna að Óskar Þór heldur áfram að bæta sig í hverju hlaupi, Summi vann sinn aldursflokk í 5km og Þorvaldur var í öðru sæti í sínum aldursflokki í hálfu.

Vel gert Laugaskokk!

Daldís Ýr Guðmunsdóttir 

3. jún. 2016

Monteal hlaup


Samantekt fyrir hlaupið, flug, hotel og annað nytsamlegt© 2014 Laugaskokk. WP Wildweblab converted by Bloggertheme9